Erlent

Kominn aftur til Íraks þrátt fyrir pyntingar í Abu Ghraib

Einn af bandarísku hermönnunum sem sakfelldir voru fyrir aðild að misþyrmingum á föngum í Abu Ghraib fangelsinu skammt frá Bagdad er kominn aftur til Íraks. Frá þessu greinir bandaríska tímaritið TIME.

Maðurinn sem um ræðir heitir Santos Cardona og var hundaþjálfari í hernum. Hann var sektaður og lækkaður í tign í hernum eftir að myndir birtust af honum og öðrum hermönnum með þjálfaða hunda sem þeir beittu gegn nöktum Íraka í fangelsinu. Cardona var einnig látinn sinna verkamannavinnu í þrjá mánuði til refsingar en hann kom aftur til Íraks í vikunni og er ætlað að þjálfa írakska lögreglumenn.

Haft er eftir ættingjum hans og vinum að hann hafi kviðið því að snúa aftur enda telji hann að hann verði drepinn vegna fyrri gjörða sinna. TIME hefur eftir fyrrverandi yfirmanni í bandaríska hernum að með því að senda Cardona aftur til Íraks sé verið að senda röng skilaboð því misþyrmingarnar í Abu Ghraib séu ekki gleymdar. Ákvörðunin geti því magnað enn frekar andstöðuna við Bandaríkjaher í Írak sem eigi nú þegar í vandræðum í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×