Erlent

Bechtel kallar starfsmenn heim frá Írak

Bandaríska verktakafyrirtækið Bechtel hefur ákveðið að kalla alla starfsmenn sína heim frá Írak. Fyrirtækið, sem er að reisa álver í Reyðarfirði fyrir Fjarðaál, hefur einnig tekið þátt í endurbyggingu í Írak. Rúmlega fimmtíu starfsmenn fyrirtækisins hafa týnt lífi þar.

Starfsmenn Bechtel hafa verið að störfum í Írak í þrjú ár. 52 starfsmenn hafa týnt lífi þar á þeim tíma og 49 særst. Fram kemur á fréttavef BBC að bandarísk stjórnvöld réðu fyrirtækið og hafa greitt því jafnvirði tæplega 160 milljarða íslenskra króna fyrir.

Talsmaður fyrirtækisins segir Bechtel ekki sækjast eftir fleiri verkefnum í Írak en síðasti samningur rann út í byrjun þessarar viku. Hann segir sorglegt að sjá hvað ástandið í landinu hafi versnað til muna á síðustu misserum. Öryggi útlendinga þar sé ekki nægilega vel tryggt.

Bechtel var falið að leggja vegi og byggja brýr í Írak. Fyrirtækið hafi einnig umsjón með því að reisa verksmiðjur sem hreinsa vatn og byggja sjúkrahús. Flestir starfsmenn Bechtel sem týndu lífi urðu fyrir árásum utan vinnutíma. 40 þúsund starfsmenn vinna fyrir Bechtel í Írak, margir þeirra eru Írakar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×