Erlent

Saka arabíska vígamenn um morð á börnum í Darfur

MYND/AP

Friðargæsluliðar á vegum Afríkubandalagsins í Darfur-héraði í Súdan saka arabíska vígamenn úr svokölluðum Janjawwed-sveitum um að hafa drepið að minnsta kosti 63 borgara í árásum í liðinni viku. Þar af sé tæpur helmingur börn undir tólf ára aldri.

Árásirnar voru gerðar á búðir í vesturhluta Darfur þar sem uppreisnarmenn andsnúnir ríkisstjórn landsins hafa ráðið lögum og lofum.

Ríkisstjórn Súdans hefur sætt harðri gagnrýni á alþjóðavettvangi fyrir að styðja við bakið á arabísku vígamönnunum en ríkisstjórnin segist byrjuð að afvopna sveitir þeirra.

Fram kemur á vef BBC að íbúar í þorpum í Vestur-Darfur nærri landamærunum að Tsjad flýi nú heimili sín vegna árása Janjaweed-sveitanna og segir talsmaður uppreisnarmanna að sveitirnar ætli sér augljóslega að ganga á milli bols og höfuðs á uppreisnarmönnum.

Átökin í Darfur hafa staðið yfir í um þrjú ár og er talið að um 200 þúsund manns hafi látist af þeirra völdum og um tvær milljónir manna þurft að yfirgefa heimili sín. Janjaweed-sveitirnar hafa verið sakaðar um þjóðernishreinsanir á svörtum Afríkubúum í landinu en súdönsk stjórnvöld segja vandann ýktan í fjölmiðlum og hafa neitað að taka á móti friðargæsluliði frá Sameinuðu þjóðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×