Erlent

Molnuðu í höndunum á viðskiptavinum

Um 1500 evruseðlar úr þýskum hraðbönkum hafa molnað í höndum viðskiptavina síðustu vikur. Ekki er vitað til þess að slíkt hafi gerst í öðrum Evrópusambandslöndum. Svo virðist sem seðlarnir hafi komist í tæri við sýru.

Fjölmargir viðskiptavinir hinna ýmsu banka í sautján borgum og bæjum í Þýskalandi hafa setið eftir með sárt ennið síðustu vikur og mánuði þegar þeir hafa ætlað að sækja sér eyðslufé úr hraðbanka. Peningarnir hafa bókstaflega molnað í höndunum á þeim og í mörgum tilvikum leysts upp í frumeindir sínar. Fyrst fréttist af svo viðkvæmum evruseðlum í Berlín og Potsdam í júní og júlí. Síðan þá hefur tilvikum fjölgað og þýska lögreglan komin með málið á sína könnu.

Að sögn Franz Christoph Zeitler, aðstoðarbankastjóra þýska seðlabankans, er ekki um galla í prentun að ræða. Ekki sé þó vitað hvort um slys eða skemmdarverk sé að ræða. Ljóst sé að sýran hafi borist í seðlana eftir að þeir komu úr prentun.

Að sögn þýska blaðsins Bild er um að ræða breinnisteinssýru. Seðlarnir sem grotna í sundur eru ekki falsaðir heldur ósviknir.

Zeitler segir þetta ekki það marga seðla sem um ræði þegar á heildina sé litið. Fimm milljarðar seðla séu í umferð. Hann segir þetta í fyrsta sinn sem svona nokkuð gerist í Þýskalandi og ekki vitað til þess að þetta hafi gerst í öðru Evrópusambandslandi. Viðskiptavinir geta leitað til seðlabankans eða eigin viðskiptabanka með leifar seðal sinna og fengið nýja í staðinn.

Þær upplýsingar fengust hjá Seðlabanka Íslands að ekki væri vitað til þess að eitthvða þessu líkt hefði gerst hér á landi og ólíklegt talið að það ætti eftir að gerast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×