Erlent

Tekist á um málefni samkynhneigðra

Heitar umræður standa nú yfir á Lögþingi Færeyja um lagafrumvarp sem miðar að því að bæta réttarstöðu samkynhneigðra. Þingheimur skiptist í tvær jafnstórar fylkingar og því er afar erfitt að spá um afdrif málsins.

Málefni samkynhneigðra hafa verið í brennidepli í Færeyjum að undanförnu. Í dag kom til umræðu á Lögþingi Færeyja lagafrumvarp sem bannar hvers konar mismunun á grundvelli kynferðis en hommar og lesbíur hafa ekki notið slíkrar verndar fram til þessa. Áður en þingfundur hófst voru undirskriftalistar með nöfnum 20.000 stuðningsmanna frumvarpsins afhentir forseta þingsins, svipaðir listar bárust einnig frá andstæðingum laganna. Ekki var greitt atkvæði um frumvarpið í dag heldur var því vísað beint í nefnd. Við aðra og þriðju umræðu verða hins vegar kosið um málið og þá kemur stuðningur þingheims í ljós. Sonja Jógvansdóttir, talsmaður Friðarboðans, samtaka samkynhneigðra í Færeyjum, segir mjög erfitt að spá fyrir um lyktir málsins en vonar þú hið besta. Sonja segir umræðuna hafa verið mjög harkalega og sumir stjórnmálamenn jafnvel líkt stuðningsmönnum samkynhneigðum við nasista. Slíkt sé mjög særandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×