Tónlist

Kemur út á DVD

Nirvana - Live! Tonight! Sold Out!! er loksins fáanlegur á DVD, en upprunalega kom þessi titill út á VHS formatinu árið 1994.

Kurt Cobain kom með hugmyndina af þessari útgáfu ári eftir að tímamótaplatan Nevermind kom út 1991. Núna hefur Live! Tonight! Sold Out!! verið betrumbætt til muna fyrir þessa útgáfu á DVD. Litir hafa verið lagaðir, allt hefur verið endurhljóðblandað í 5.1 víðóma hljómi og aukaefni sem aldrei hefur áður sést hefur verið bætt á diskinn.

Live! Tonight! Sold Out!! er kraftmikil og persónuleg heimild um Nirvana frá heimtónleikaför þeirra á árunum 1991-1992 og áfram til ársins 1993. Diskurinn inniheldur samtals 22 lög ásamt viðtölum, baksviðstökum og upptökum frá æfingum sveitarinnar. Upphaflega var útgáfunni rennt úr hlaði af þeim Krist Novoselic og Dave Grohl eftir að Kurt Cobain lést sviplega 5 apríl árið 1994.

Aukalögin eru tekin upp á tónleikum í Paradiso klúbbinum í Amsterdam árið 1991. Lögin eru School, About A Girl, Been A Son, On A Plain og Blew. Annars eru öll lögin sem voru á upphaflegu útgáfunni að finna á disknum. Frægar tökur eru á disknum af því þegar Kurt og Dave klæddu sig upp í kjóla á risatónleikum í Brasilíu, upptökur frá því þegar þeir voru aðalnúmerið á Reading tónlistarfestivalinu, sjónvarpsupptökur frá Top Of The Pops á BBC og fleira og fleira.

Frábær heimild um hljómsveit sem stofnuð var í litlum bæ í Washington fylki, en á disknum erum við leidd í gegnum tímabil þegar Nirvana fór úr því að vera hálfgert bílskúrsband í að vera eitt mikilvægasta rokkband heimsins.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×