Erlent

John McCain hyggur á framboð í forsetakosningum í Bandaríkjunum árið 2008

John McCain.
John McCain. MYND/AP

Búist er við því að John McCain, öldungadeildarþingmaður repúblikana í Arisóna, ætli sér að bjóða sig fram í forsetakosningunum sem verða haldnar árið 2008. Þótt engin formleg ákvörðun hafi verið tekin segja nánir samverkamenn hans að vinna við hugsanlegt framboð sé þegar hafin.

Þrátt fyrir ósigur repúblikana í þingkosningnum sem fram fóru 7. nóvember síðastliðinn telur McCain að hann eigi nú góða möguleika á að sannfæra kjósendur um að kjósa sig. Samkvæmt skoðanakönnunum sem nýlega voru gerðar er McCain vinsæll í hópi óákveðinna kjósenda en það er sá hópur sem kaus demókrata í umræddum þingkosningum og veitti þeim stjórn í báðum deildum þingsins í fyrsta sinn í tólf ár.

En af hverju að byrja svo snemma? Jú, þar sem í fyrsta sinn í 80 ár mun hvorki sitjandi forseti né varaforseti bjóða sig fram. McCain er hinsvegar 70 ára og mun því verða elsti forseti Bandaríkjanna ef hann nær kjöri. McCain bauð sig fram í prófkjöri repúblikana til forsetaembættisins árið 2000 en tapaði þar fyrir George W. Bush.

Fréttavefur ABC fréttastofunnar skýrir frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×