Erlent

Enn ein fjöldagröfin í Bosníu

Fjöldagröf í Bosníu
Fjöldagröf í Bosníu MYND/AP

Enn ein fjöldagröfin er fundin í Bosníu og er talið að hún sé frá fjöldamorðunum í Srebrenica árið 1995.

Samtals fundust jarðneskar leifar 156 fórnarlamba. Þar af voru níutíu heil lík og svo líkamshlutar af sextíu og sex mönnum.

Srebrenica var einn af hinum svokölluðu griðastöðum Sameinuðu þjóðanna í Bosníu, og þangað söfnuðust þúsundir múslima sem flúðu heri Serba. Serbneskar hersveitir undir stjórn hershjöfðingjans Ratko Mladic, komu til bæjarins og lofuðu að flytja flóttafólkið á öruggan stað.

Hollenskir gæsluliðar Sameinuðu þjóðanna féllust á það. Fólkið var flutt á brott og um átta þúsund karlmenn og ungir drengir voru myrtir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×