Erlent

Fuglaflensa staðfest í Suður-Kóreu

Fuglaflensa af stofninum H5N1 hefur verið staðfest í fuglum á kjúklingabúi í Suður Kóreu. Tilfellið kom upp á fuglabúi í Iksan, sem er tvö hundruð og fimmtíu kílómetra suður af Seoul.

Rúmlega sex þúsund fuglar drápust úr flensunni og þurfti að slátra tæplega sjö þúsundum til viðbótar. Fuglaflensa kom upp í Suður-Kóreu milli desember 2003 og mars 2004 og sýkti þá 400 þúsund fugla. Eftir að sú sýking kom upp voru 5,3 milljónum fugla slátrað í landinu.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin segir að alls hafi 258 manns greinst með fuglaflensu og af þeim hafi 153 látið lífið. H5N1 afbrigði flensunnar er talið geta breytt sér og sýkt menn. Yfirvöld um allan heim eru að undirbúa viðbrögð við því ef faraldur brýst út meðal manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×