Erlent

Fyrrverandi forsætisráðherra Rússlands veikist á dularfullan hátt

Jegor Gaidar, fyrrverandi forsætisráðherra Rússlands.
Jegor Gaidar, fyrrverandi forsætisráðherra Rússlands. MYND/AP

Jegor Gaidar, fyrrverandi forsætisráðherra Rússlands, liggur á sjúkrahúsi í Moskvu eftir að hafa veikst á dularfullan hátt í heimsókn til Írlands á dögunum. Gaidar, sem er mörgum talinn maðurinn á bak við efnahagsumbætur í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna, féll í öngvit í Dyflinni þar sem hann var að kynna nýja bók sína og var um tíma óttast um líf hans.

Læknar hafa ekki fundið skýringu á veikindum hans. Breska blaðið Financial Times segir frá því að hugsanlegt sé að eitrað hafi verið fyrir honum líkt og fyrrverandi njósnaranum Alexander Litvinenko, sem lést í síðustu viku, en dóttir hans, Maria, hefur ekki viljað tjá sig um þá frétt.

Hins vegar segir Anatolí Tsjúbaís, góðvinur Gaidars og fyrrverandi starfsmannastjóri Jeltsíns Rússlandsforseta, að engin spurning sé um það að tengsl séu á milli veikinda Gaidars, dauða Litvinenkos og morðsins á rússnesku blaðakonunni Önnu Politkovskaju. Allt sé það runnið undan rifjum stjórnvalda í Moskvu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×