Það verður mjög athyglisverður leikur í beinni útsendingu á NBA TV sjónvarpsstöðinni á Fjölvarpinu í nótt þar sem LA Lakers tekur á móti Utah Jazz. Liðin hafa bæði byrjað leiktíðina vonum framar og situr Utah í efsta sæti deildarinnar.
Leikur kvöldsins er þó líklega aðeins fyrir allra hörðustu nátthrafna, því hann hefst klukkan hálf fjögur að íslenskum tíma. Þá er rétt að minna á að annað kvöld, föstudagskvöld, verður leikur Dallas Mavericks og Sacramento Kings sýndur beint á Sýn klukkan 1 eftir miðnætti. Dallas er heitasta liðið í NBA um þessar mundir og stefnir á sinn 13. sigur í röð annað kvöld. Fyrir áhugasama má líka geta þess að DV verður með ítarlega úttekt á óvæntu gengi Utah Jazz á íþróttasíðum blaðsins á morgun.