Erlent

Tengsl milli jafnréttis og velferðar barna

Náin tengsl eru á milli jafnréttis kynjanna og velferðar barna, samkvæmt nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, sem birt var í dag. Þar er vitnað til rannsókna sem sýna að ef karlmenn og konur hefðu jafnmikil völd í ákvarðanatökum myndi vannærðum börnum fækka í heiminum.

Í skýrslunni er greint frá aðstæðum barna um allan heim út frá tíðni ungbarnadauða, lífslíkum, heilsu og menntun svo fátt eitt sé nefnt. Í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi kemur fram að aðstæður barna á Íslandi séu góðar í samanburði við önnur lönd heims og enn sé Ísland meðal þeirra landa sem hafa lægsta tíðni ungbarnadauða.

Í skýrslunni er bent á að jafnrétti kynjanna og aukin völd kvenna í heiminum séu mikilvæg fyrir heilbrigði og þróun fjölskyldna, samfélaga og þjóða.

Skýrsluhöfundar vitna til rannsóknar á vegum International Food Policy Institution þar sem segir að ef karlmenn og konur hefðu jafnmikil völd þegar kæmi að ákvarðanatöku myndi vannærðum börnum undir þriggja ára fækka um þrettán prósent í Suður-Asíu - það er rúmum þrettán milljónum færri vannærð börn á svæðinu. Í sunnanverðir Afríku fengju ein komma sjö milljón barna betri næringu.

Í skýrslunni er nefndur eins konar leiðarvísir að jafnrétti kynjanna þar sem tekið væri tillit til menntunar kvenna, grasrótarsamtök verði efld og rannsóknir á mæðradauða, ofbeldi gegn konum og atvinnuþátttöku þeirra auknar.

Skýrsluhöfundar telja einnig kynjakvóta góða aðferð til að tryggja þátttöku kvenna í stjórnmálum. Hólmfríður Anna Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF Ísland, sagði í Hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag að sú aðferð hefði sannað sig þó umdeild væri. 17 þeirra 20 landa þar sem þátttaka kvenna á þjóðþingi sé mest beiti einhvers konar kynjakvóta. Það séu lönd á borð við Afganistan, Írak og Rúanda og engin þurfi að segja henni það að þessi lönd hafi ekki gott af þátttöku kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×