Ágætlega horfir með veður nú um jólahátíðina. Vindur gengur smám saman niður á landinu í dag og þegar jólaklukkur boða hátíð í bæ ætti víðast hvar að vera komið prýðilegasta veður. Einna síst verður veðrið allra austast á landinu þar sem vindstrengur lónir við ströndina en er í rénun og ætti vindur að vera gengin niður þar í nótt.
Á jóladag og annan í jólum eru horfur á fremur rólegur suðvestlægum áttum með skúraveðri hér og hvar. Má ætla að hitastigið um jóladagana verði á bilinu 2-8 stig og því eru horfur á rauðum jólum víðast hvar á landinu. Vegir eru nánast auðir um allt land og þar sem horfur er á hlýindum næstu daga ættu skilyrði til ferðalaga að vera með besta móti þessa jólahátíð, sem eru talsverð umskipti frá því sem verið hefur nú síðustu dagana fyrir jól.