Innlent

Réttaróvissa en ekki skattsvik

Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair þvertekur fyrir að félagið hafi svikist um að standa skil á sköttum vegna leigu á flugvélum.

Hann segir að félagið hafi haft frumkvæði að því að benda á þá réttaróvissu sem var um skattgreiðsluna og beðið um skýrar línur frá yfirvöldum. Skatturinn verður aflagður um áramót, meðal annars með vísan til þess að hann hafi engu skilað í ríkissjóð.

Eins og greint var frá í fréttum í gær verður skattalögum breytt nú um áramót þannig að flugrekendum er ekki lengur skylt að halda eftir fimmtán prósentum af greiðslum vegna leigu á flugvélum frá erlendum félögum. Rökstuðningur lagabreytingarinnar var meðal annars sá að þetta hefði hvort eð er ekki skilað neinu í ríkissjóð. Icelandair er einn af íslensku flugrekendunum og segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri þess að félagið hafi átt frumkvæði að því að benda á réttaróvissu um þessar greiðslur.

Félagið hafi ekki svikist um að standa skil á þessum gjöldum. Icelandair var í viðræðum við fjármálaráðunytið vegna þessara laga en Jón Karl segir að það hafi ekki verið farið fram á breytingu á lögunum, einungis að réttaróvissu væri eytt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×