Innlent

Bæði vilja í forsætisráðherrastólinn

Það verður ekki heiglum hent að mynda félagshyggjustjórn eftir kosningar í vor ef marka má orðaskak formanna Samfylkingar og Vinstri grænna í Kryddsíldinni á gamlársdag. Ný staða gæti komið upp í íslenskum stjórnmálum eftir kosningar, segir stjórnmálafræðingur, ef sá flokkur sem lengst er til vinstri fengi stól utanríkisráðherra

Formenn stjórnmálaflokkanna rökræddu í Kryddsíldinni á gamlársdag. Titringur hljóp í kaffibandalagið svonefnda, sem hefur heitið því að ræða myndun ríkisstjórnar falli sitjandi stjórn, þegar ljóst var að formenn Samfylkingar og Vinstri grænna stefndu báðir í stól forsætisráðherra. Steingrímur J. Sigfússon sagði að tækist að fella stjórnina væri það ekkert náttúrulögmál að stærsti flokkurinn í stjórn fengi forsætisráðherrastólinn.

Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur segir nokkuð ljóst að Vinstri grænir gefi forsætisráðherrastólinn ekki eftir nema fá eitthvað í staðinn. "Segjum sem svo að kaffibandalagið gangi saman og myndi ríkisstjórn og gefum okkur að Ingibjörg fái þá forsætisráðherraembættið þá væri eðlilegast að Vinstri grænir og Steingrímur J. Sigfússon fengju utanríkisráðherrastólinn. Það er staða sem er í raun alveg ný í íslenskum stjórnmálum að sá flokkur sem er lengst til vinstri fái utanríkisstólinn."

Einar telur þó ekki sennilegt að steyti á stólum í viðræðum stjórnarandstöðuflokkanna, líklegra væri að stefna Frjálslyndra í innflytjendamálum gæti staðið í veginum.

Kryddsíldina má sjá í heild sinn hér: fyrri hluti og seinni hluti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×