Innlent

Flugstoðir hafa ekki svarað flugumferðarstjórum

Flugumferðarstjórar samþykktu einróma í dag að ganga að samkomulagi við Flugstoðir. Því má reikna með að flugumferð komist aftur í eðlilegt horf yfir landinu. Farsæl lending í sjónmáli, segir forstjóri Flugstoða.

Tugir flugumferðastjóra voru mættir á félagsfundinn upp úr hádegi í dag sem stóð á þriðju klukkustund. Ræða átti samkomulag við Flugstoðir sem náðist í gærkvöldi - áður en stjórn flugumferðarstjóra gekk af fundi. Flugumferðarstjórar vildu bera samkomulagið undir félagsfund í dag - það vildu forsvarsmenn Flugstoða ekki. Samkomulag í höfn - en strandaði á formsatriði sögðu flugumferðarstjórar. Fyrirsláttur sagði forstjóri Flugstoða sem sakaði stjórnina um að halda félagsmönnum sínum í spennitreyju. En á félagsfundinum í dag var það einróma samþykkt að veita stjórninni umboð til að skrifa undir samkomulagið um lífeyrisréttindi flugumferðarstjóra."Þetta er samkomulag sem lá fyrir í gær, félagsmenn eru ánægðir með það og hafa falið okkur að skrifa undir, standi það til boða," segir Loftur Jóhannsson formaður Félags flugumferðarstjóra. Ef skrifað verður undir mun flugumferð færast í eðlilegt horf segir Loftur og sér sjálfur enga fyrirstöðu fyrir því að lending náist.

Þorgeir Pálsson forstjóri Flugstoða segir að enn verði flogið samkvæmt viðbúnaðaráætlun sem hafi gengið vel og án tafa. Ekki sé búið að boða til fundar með stjórn flugumferðarstjóra. Stjórn Flugstoða þurfi að fara yfir málið og síðan verði ákvarðanir teknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×