Viðskipti innlent

Greiðsluafkoma ríkissjóðs jákvæð um 23 milljarða

Handbært fé frá rekstri ríkissjóðs jókst um 52 milljarða krónur á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs. Þetta er 30,1 milljarði hagstæðari niðurstaða en á sama tíma árið áður. Tekjur hækkuðu um 34 milljarða krónur á tímabilinu miðað við síðasta ár ef undan er skilin salan á Landssímanum. Gjöld hækka hins vegar um 5 milljarða krónur á milli ára. Þetta merkir að greiðsluafkoma ríkissjóðs var jákvæð um rúma 23 milljarða krónur á fyrstu ellefu mánuðum ársins samanborið við 11,4 milljarða árið áður.

Í Vefriti Fjármálaráðuneytisins, sem kom út í dag, kemur fram að tekjur ríkissjóðs námu 339 milljörðum króna frá janúar til nóvember á síðasta ári sem er 22 milljarða króna samdráttur á milli ára. Munar þar um 57 milljarða króna söluhagnað af sölu á Landssímanum árið áður. Sé litið fram hjá honum jukust heildartekjur á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs um 34 milljarða krónur eða 11,3 prósent. Skatttekjur og tryggingagjöld jukust um 12,9 prósent að nafnvirði eða 5,9 prósent umfram verðbólgu.

Skattar á tekjur og hagnað námu 107 milljörðum króna á tímabilinu í fyrra en það er 20 prósenta aukning frá sama tíma árið áður. Innheimt tryggingagjöld jukust um 16 prósent milli ára en inn­heimta eignarskatta nam 8,3 milljörðum króna. Innheimta stimpil­gjalda fellur þar undir.

Innheimta skatta á vöru og þjónustu (svokallaðir veltuskattar) nam 160 milljörðum króna en það er 5,9 prósenta aukning að raunvirði.

Greidd gjöld námu 285 milljörðum króna á tímabilinu en það er 5 milljörðum meira en á sama tíma á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2005.

Þá nema lántökur á tímabilinu 21,6 milljörðum króna í fyrra en afborganir lána námu 44,6 milljörðum króna. Mismunurinn er fjármagnaður með handbæru fé frá rekstri.

Greiddir voru 3,7 milljarðar til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í því skyni að lækka framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs, að því er segir í Vefriti Fjármálaráðuneytisins.

Vefur Fjármálaráðuneytis






Fleiri fréttir

Sjá meira


×