Innlent

Innbrotsþjófur í neyð

Smokkar svipaðir þeim sem stolið var.
Smokkar svipaðir þeim sem stolið var. MYND/AP

Brotist var inn í söluskála Esso á Suðureyri aðfaranótt fimmtudags og var þjófurinn augljóslega í neyð því það eina sem hann hafði á brott voru 4 pakkar af Durex smokkum með ávaxtabragði. Eftirlitsmyndavél er á staðnum og náði hún að festa atburðinn á filmu. Þjófurinn reyndi svo lítillega að opna peningakassann á leið sinni út aftur, en þegar að það gekk ekki greiðlega fyrir sig, hvarf hann á braut.

Hvort þjófurinn á erfitt með að kaupa sér smokka eins og annað fólk gerir, eða hvort neyðin hafi knúið hann til verknaðarins er ekki vitað. Lögreglan á Ísafirði vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu þar sem það er ekki upplýst.

Ef einhverjir vita hver var þarna að verki eða hafa upplýsingar sem geta auðveldað rannsóknina er hægt að koma þeim ábendingum til lögreglunnar á Ísafirði.

Fréttavefurinn Bæjarins Besta segir frá þessu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×