Innlent

Hugsanlegt að borgin kosti fleiri öryggismyndavélar

Formaður borgarráðs segir borgarstjórn vilja ræða hugmyndir nýs lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins um fleiri öryggismyndavélar og segir hugsanlegt að borgin leggi til fjármuni í verkið.

Átta eftirlistmyndavélar á vegum lögreglunnar er í miðbæ Reykjavíkur og hafa að sögn lögreglumanna marg oft sannað gildi sitt. Nýlegt dæmi sýnir þegar myndir af hrottalegri árás ungra pilta náðust á myndavél kínverska sendiráðshússins í Garðarstæti en þær urðu til þess að málið upplýstist. Fleiri dæmi eru til um slíkt en hnífsstunguárás á menningarnótt árið 2005 náðist á öryggismyndavél og hægt var að fylgja árásarmanninum þar til hann náðist. Þá náðist á mynd þegar maður var stunginn í Lækjargötu fyrir nokkrum árum en sjálfur hafði maðurinn ekki gert sér grein fyrir alvarleika stungunnar. Eins hafa myndavélar oft komið lögreglu á sporið við að upplýsa mál þó atburðirnir sjálfir náist ekki á mynd.

Stefán Eiríksson nýr lögreglustjóri vill fleiri myndavélar í miðborgina, eins og upp eftir Laugavegi og Hverfsgötu. Þá segir hann vélarnar sem fyrir eru orðnar lúnar enda tíu ára gamlar en á þeim tíma sá borgin um kaup á vélunum. Björn Ingi Hafnsson, formaður borgarráðs, segir vel koma til greina að borgin leggi til fjármagn og er hann til í viðræður við lögregluna til að auka öryggi borgaranna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×