Viðskipti innlent

Eimskip kaupir Daalimpex

Flutningabíll frá Daalimpex í Rotterdam í Hollandi.
Flutningabíll frá Daalimpex í Rotterdam í Hollandi.
Eimskip hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Daalimpex beheer B.V. í Hollandi, einu stærsta frystigeymslufyrirtæki í Hollandi. Eimskip átti fyrir 40 prósenta hlut í fyrirtækinu. Kaupverð er ekki gefið upp en kaupin eru fjármögnuð með handbæru fé Eimskips.

Í tilkynningu frá Eimskipi kemur fram að áætluð velta Daalimpex nemi 30 milljónum evra eða tæpum 2,8 milljörðum króna á yfirstandandi ári. Rekstarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður um 20 prósent af veltu eða 6 milljónir evra sem jafngildir um 560 milljónum króna. Rekstur og efnahagur Daalimpex kom inn í rekstur Eimskips frá nýársdegi á þessu ári.

Daalimpex er eitt stærsta frystigeymslufyrirtæki í Evrópu og rekur sex frystigeymslur í Hollandi. Kaupin á Daalimpex eru sagðar styrkja verulega stöðu Eimskips í frystiflutningum í Evrópu og renna stoðum undir frekari uppbyggingu á frystiþjónustu á meginlandi Evrópu. Á síðastu mánuðum hefur Eimskip tekist að verða leiðandi aðili í frystigeymslum á alþjóðavísu með kaupum á Innovate og Corby í Bretlandi, Atlas Cold Store í Kanada og nú Daalimpex í Hollandi, að því er segir í tilkynningunni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×