Erlent

Danska fréttastöðin TV2 í miklum vanda

Hin nýja danska sjónvarpsfréttastöð TV2 er í vanda eftir að hún hefur verið sökuð um að lofa auglýsendum að þeir gætu haft áhrif á fréttaflutning stöðvarinnar. Það er brot á dönskum lögum um útvarps- og sjónvarpsrekstur, svo ekki sé minnst á traust áhorfenda.

TV2 fór í loftið rétt fyrir hátíðarnar, og áhorfstölurnar hafa ekki verið glæsilegar. Vart er við því að búast að þær hækki mikið eftir viðtal sem Extra blaðið birti í dag við forstjóra eins af fyrirtækjunum sem lögðu fé í stofnun stöðvarinnar.

Stöðin fór þá leið að fá stórfyrirtæki til þess að leggja fram fé. Meðal þeirra er fyrirtækið Siemens Hvidevarer sem lagði fram um fimmtíu milljónir íslenskra króna. Forstjóri þess dregur ekki dul á það í samtali við Extra blaðið að hann búist við meira en venjulegri umfjöllun um fyrirtækið og vörur þess.

Hann segir að þeir geti valsað inn á fréttastofuna með fréttatilkynningar sínar og sagt; "Hey, við erum með samning, kíkið þið aðeins á þetta."

Peter Mikael Jensen, framkvæmdastjóri TV2 viðurkennir að eitthvað hafi farið úrskeiðis í tjáskiptum við hina nýju eigendur. Þeim verði alls ekki hyglað með þeim hætti sem forstjórinn talar um.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×