Viðskipti innlent

Kaupþing með uppfærða afkomuspá Alfesca

Greiningardeild Kaupþings hefur gefið út uppfærða afkomuspá sína fyrir matvælaframleiðandann Alfesca. Spáin er gerð í ljósi upplýsinga sem ekki lágu fyrir við gerð síðustu afkomuspár í lok nóvember. Deildin ítrekar fyrra verðmat sitt og mælir með því að fjárfestar minnki við sig í félaginu.

Í afkomuspá Alfesca segir að fyrirtækið hafi selt húsnæði sitt í Hafnarfirði í desember og sé áætlað að bókfærður hagnaður vegna sölunnar muni nema um einni milljón evra eða um 92 milljónum íslenskra króna.

Salan hækkar hagnaðarspá Alfesca á fjórðungnum og fyrir árið í heild um 800 þúsund evrur eða 73,6 milljónir íslenskra króna.

Er gert ráð fyrir að hagnaður Alfesca á öðrum fjórðungi fjárhagsársins muni nema 19,9 milljónum evra eða 1,8 milljörðum króna og að hagnaður félagsins fyrir árið í heild verði 18,1 milljón evra eða rúmlega 1,6 milljörðum króna.

Greiningadeild Kaupþings hefur ekki breytt verðmati sínu á Alfesca vegna þessa og telur að fjórðungurinn verði ekki nægilega góður fyrir félagið í heild. „Við höldum tólf mánaða markgengi okkar óbreyttu og mælum áfram með því að fjárfestar minnki við sig í félaginu (Reduce)," segir greiningardeildin.

Afkomuspá Alfesca






Fleiri fréttir

Sjá meira


×