Erlent

Alþjóðleg umhverfislögregla

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, skorar á þjóðir heims að setja umhverfismál í forgang á alþjóðavettvangi. Fjörutíu og sex ríki styðja tillögu Chiracs um nýja umhverfisstofnun sem gæti jafnvel knúið ríki til að framfylgja alþjóðasáttmálum um loftslagsmál.

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hélt áfram í París í dag og þar hvatti Jacques Chirac Frakklandsforseti þjóðir heims allar sem eina um að setja umhverfið í forgang.

Evrópuþjóðirnar fögnuðu tillögu forsetans um stofnun sem gæti mótað reglur og jafnvel knúið ríki til að framfylgja þeim. Ekki fögnuðu þó allir. Þær þjóðir sem mest menga héldu sig til hlés, meðal annars Bandaríkin, Kína, Indland og Rússland. Alls samþykktu 46 þjóðir að taka þetta skref og fyrsti fundur um þessa stofnun verður haldinn í Marokkó nú í vor. Án þess að nefna Bandaríkin sérstaklega á nafn lýsti Chirac óánægju með að sannfæra þyrfti sumar stórar ríkar þjóðir um mikilvægi þessa.

Mörgum spurningum um þessa umhverfislögreglu er ósvarað, til dæmis hvort hún muni hafa völd til að knýja þjóðir til að uppfylla skilyrði í alþjóðasáttmálum um loftslagsmál. Í tillögu Chiracs er eingöngu gert ráð fyrir að stofnunin meti skaða á umhverfinu og styðji þjóðir til að fylgja eftir ákvörðunum um loftslagsmál. Margar þjóðir hafa ekki uppfyllt markmið Kýótóbókunarinnar frá 1997 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Bókun sem Bandaríkin skrifuðu aldrei undir. Chirac varaði Bandaríkjastjórn við í vikunni þegar hann sagði í viðtali að þau mættu eiga von á sérstökum kolefnistolli á útflutningsvörur ef þau skrifa ekki undir alþjóðlega samninga um loftslagsmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×