Erlent

Tuttugu og fimm ára rútuferð

Í stað þess að koma í litla þorpið sitt lenti Jaeyaena í Bangkok.
Í stað þess að koma í litla þorpið sitt lenti Jaeyaena í Bangkok. MYND/Úr einkasafni

Jaeyaena Beuraheng er múslimi af malaiskum uppruna sem hvorki kann að tala eða skrifa taílensku. Hún bjó í einu af þrem múslimahéruðum syðst í Thaílandi, sem voru innlimuð í Taíland fyrir meira en eitthundrað árum. Þau hafa hinsvegar aldrei runnið saman við Taíland og tungumál og siðir eru allt aðrir.

Fyrir tuttugu og fimm árum, þegar hún var fimmtug, fór hún að heimsækja eiginmann sinn, sem vann í Malasíu. Á heimleiðinni tók hún vitlausa rútu og hvarf í 25 ár. Í stað þess að enda í litla þorpinu sínu endaði hún í Bangkok sem er 1200 kílómetrum Norðar. Þar reyndi hún að taka rútu til baka en fór þess í stað 700 kílómetra enn lengra í norður, til borgarinnar Chiang Mai.

Fyrstu fimm árin þar sá hún sér farboða með betli, en þá var hún handtekin og komið fyrir á stofnun fyrir heimilislausa. Þar vann hún næstu tuttugu árin þartil svo vildi til að tveir ungir námsmenn úr heimahéraði hennar komu til vinnu á stofnuninni.

Sér til mikillar furðu heyrði hún allt í einu fólk tala mál sem hún skildi. Og sér til mikillar furðu komst annað starfsfólk stofnunarinnar að því að hún var ekki mállaus. Hin 76 ára gamla Jaeyaena Beuraheng er nú aftur komin í faðm fjölskyldunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×