Erlent

Engum eldflaugum beint gegn Rússum

Forseti Tékklands sagði í dag að ef Tékkar tækju þátt í eldflaugavörnum Bandaríkjanna, væri þeim flaugum ekki beint gegn Rússlandi. Rússar hafa brugðist ókvæða við beiðni Bandaríkjanna um að fá að setja upp ratsjárstöðvar og eldflaugar í Tékklandi og Póllandi. Bandaríkjamenn segja að tilgangurinn sé að verjast eldflaugaárásum frá Íran og Norður-Kóreu.

Vaclav Claus, forseti Tékklands, sagði á fundi með fréttamönnum í Tokyo í dag, að engin ákvörðun hefði ennþá verið tekin um þessar eldflaugavarnir og að það yrði varla gert fyrr en að ári eða svo. Hinsvegar væri ljóst strax í dag að þessum flaugum yrði ekki beint gegn Rússlandi.

Bandaríkjamenn eru sama sinnis og segja að aðeins yrðu fáar eldflaugar settar upp í Evrópu. Þær gætu stöðvað takmarkaðar eldflaugaárásir, en réðu ekkert við jafn stórt vopnabúr og Rússar ættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×