Erlent

Rússar boða friðarviðræður Ísraela og Palestínumanna

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á NATO ráðstefnu.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á NATO ráðstefnu.

Utanríkisráðherra Rússlands segir líklegt að Ísraelar og Palestínumenn fallist á að hefja friðarviðræður á nýjan leik, þegar leiðtogar landanna hittast hinn nítjánda þessa mánaðar. Sergei Lavrov, sagði á fundi með fréttamönnum að hann búist við því að leiðtogarnir samþykki að hefja viðræður um rammasamkomulag um endanlega lausn á deilum sínum.

Ísraelar hættu viðræðum við Palestínumenn þegar Hamas samtökin unnu stóran sigur í þingkosningum, á síðasta ári og fengu meirihluta í ríkisstjórn. Þeir hafa hinsvegar verið í óformlegu sambandi við Mahmoud Abbas, forseta Palestínumanna, sem þeir líta á sem hófsemdarmann sem þeir geti samið við.

Palestínumenn hafa nú sett niður innbyrðis deilur sínar, í bili að minnsta kosti, og Ismail Hanyeh, forsætisráðherra mun stíga úr þeim stóli. Hamas samtökin halda fast við að þau viðurkenni ekki tilverurétt, Ísraelsríkis. Rússar eru hinsvegar í góðu sambandi við Palestínumenn, og svo virðist sem þeir viti eitthvað sem aðrir vita ekki, miðað við orð rússneska utanríkisráðherrans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×