Erlent

Viðgerð að ljúka á hvalveiðiskipi

Viðgerðum er að ljúka á móðurskipi japanska hvalveiðiflotans sem hefur rekið  vélarvana á Suður-Íshafinu eftir mikinn eldsvoða síðastliðinn fimmtudag. Einn skipverji fórst í eldinum. Skipstjóri hvalveiðiskipsins hafnaði aðstoð frá skipi Grænfriðunga sem buðust til að draga það til hafnar. Skip Grænfriðunga var á þessu svæði til þess að trufla hvalveiðar Japana.

Áhyggjur voru af því að þarna yrði umhverfisslys enda er japanska skipið 8000 tonn og um borð er bæði talsvert af olíu og kemiskum efnum. Embættismaður í japanska sjávarútvegsráðuneytinu sagði að þær áhyggjur væru ástæðulausar, engin hætta hafi verið á því að skipið sykki, eftir að eldurinn var slökktur.

Nú væri búið að koma vélum skipsins í gang sem og ratsjárkerfi þess. Unnið væri að því að koma öðrum hlutum í lag og skipið gæti siglt fyrir eigin vélarafli eftir nokkra daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×