Erlent

Ítalska stjórnin riðar til falls

Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu.
Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu. MYND/AP

Ítalska ríkisstjórnin hefur verið kölluð saman til fundar, í kvöld, og ekki er talið ólíklegt að hún segi af sér eftir að hafa beðið ósigur í atkvæðagreiðslu um utanríkismál, á þinginu í dag. Stjórnarandstaðan hefur krafist þess að vinstri stjórn Romanos Prodis segi af sér. Lagalega séð þarf ríkisstjórnin ekki að fara, en einn af flokksmönnum Prodis segir að hún "hafi tilhneigingu til að segja af sér."

Deilurnar á þinginu stóðu um þáttöku Ítala í stríðinu í Afganistan, og hernaðarsamvinnu við Bandaríkjamenn. Mikil andstaða er gegn því að Bandaríkjamenn fái að stækka um helming herstöð sem þeir hafa í norðurhluta landsins.

Ósigurinn í atkvæðagreiðslunni er mesta áfall sem ríkisstjórn Prodis hefur orðið fyrir síðan hún tók við völdum fyrir níu mánuðum.

Ef ríkisstjórnin ákveður að segja af sér mun hún senda afsögnina til Giorgios Napolitano, forseta, sem myndi þá ræða við Prodi um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×