Erlent

Kapphlaup í kjörbúðinni

Robert Mugabe hefur stjórnað Zimbabwe í 27 ár.
Robert Mugabe hefur stjórnað Zimbabwe í 27 ár.

Verðbólga í Afríkuríkinu Zimbabwe er nú 1600 prósent á ársgrundvelli og landið er gjaldþrota, eftir 27 ára einræðisstjórn hins 83 ára gamla Roberts Mugabe. Þetta hefur auðvitað áhrif á daglegt líf þegnanna. Þeirra á meðal er Nelson Banya sem segist vera heppinn, því hann sé einn af tuttugu prósentum íbúa Zimbabwes, sem þó hafi atvinnu.

Banya segir meðal annars frá því að eins og aðrir fari hann snemma að sofa á kvöldin því rafmagnið hefur verið tekið af. Þegar hann vaknar á morgnana kveikir hann eld úr sprekum til þess að elda sér morgunverð, því rafmagnið er ekki komið á ennþá.

Oft er heldur ekkert vatn í krönunum og þá verður hann að fara með fötu í félagsmiðstöð til þess að ná í vatn. Það er hálftíma gangur hvora leið. Þegar hann svo loks leggur af stað í vinnuna er viðbúið að engir strætisvagnar gangi, því þeir eru annaðhvort bilaðir eða ekki til eldsneyti á þá.

Brauð sem kostaði 250 Zimbabwe dollara fyrir nokkrum mánuðum (70 íkr.) kostar í dag 1000 dollara (280 íkr.). Í hraðbönkum eru ekki lengur 1000 dollara seðlar, heldur aðeins 10.000.

Mest sláandi í lýsingu Nelsons Banya, er þó þegar hann segir frá því þegar hann fer út í búð til þess að kaupa inn. Þar er stanslaust kapphlaup milli viðskiptavina og afgreiðslumanna. Viðskiptavinirnir æða um búðina og grípa það sem þeir þurfa að kaupa, og reyna að vera á undan afgreiðslumanninum sem er að verðmerkja vörurnar upp á nýtt. Svo er kapphlaup að kassanum, þar sem oftar en ekki hefst hávaða rifrildi um hvort selja eigi vöruna á nýja verðinu, eða gamla verðinu, sem var fyrir hádegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×