Erlent

Alvarlegt lestarslys á Englandi

Einn týndi lífi og tæplega 80 slösuðust, þar af 5 lífshættulega, þegar hraðlest fór af sporinu á norðvestur Englandi í gærkvöldi. Lestin var á leið frá Lundúnum til Glasgow í Skotlandi með um 120 farþega.

Talið er að aðskotahlutur hafi verið á lestarteinunum og lestin því farið út af sporinu. Það hefur þó ekki fengist staðfest og jafnvel talið að bilun hafi orðið í rafmagnsleiðslum á teinunum og það valdið slysinum. Framkvæmdir hafa staðið yfir síðustu viku á þeim stað þar sem slysið varð - 435 kílómetrum norð-vestur af Lundúnum.

Einn farþegi, eldri kona, lést af sárum sínum á sjúkrahúsi. Fimm eru í lífshættu. Talið er að það taki fimm til sex daga að rannsaka vettvang slyssins áður en hægt verður að fjarlægja flak lestarinnar.

Björgunarmenn áttu erfitt með að komast að farþegunum í nótt vegna slagveðurs. Einhverjir þeirra sátu fastir í vögnum sem höfuð farið á hvolf og festst í raflínum sem höfuð fallið til jarðar. Einn vagn hékk á brún hlaðins veggs við hlið lestarteinanna, þakið hafði rifnað af öðrum.

Tvö önnur lestarslys hafa orðið á þessum sama stað síðan 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×