Erlent

Banna reykingar í heimahúsum

Reykingamenn í Bandaríkjunum eiga erfiða daga.
Reykingamenn í Bandaríkjunum eiga erfiða daga.

Í Bandaríkjunum er nú stefnt að því að banna fólki að reykja á heimilum sínum og er slíkt reykingabann raunar víða komið á nú þegar. Þá eru einstök bæjarfélög búin að banna einnig reykingar utan dyra. Aðstandendur bannsins blása á mótmæli reykingamanna og segja að þeir hafi einfaldlega engin réttindi, það sé þvert á móti réttur allra manna að anda að sér fersku lofti. Reykur geti síast á milli íbúða.

Víða í Bandaríkjunum verða menn nú þegar að skrifa undir loforð um að ekki verði reykt í íbúðum, ef þeir eru að leigja sér íbúð í fjölbýlishúsum. Sumsstaðar er gengið enn lengra og fólki sem þegar býr í íbúðunum er sagt að annaðhvort verði það að hætta að reykja, eða flytja eitthvað annað.

Ólíklegt er að þeir sem kjósa að flytja eitthvað annað setjist að í bænum Calabasas, í Kaliforníu. Þar er bannað að reykja utan dyra, svosem í almenningsgörðum og strætóstoppistöðvum. Bæjarstjórnin í Calabasas sér þó aumur á reykingamönnum með því að girða af nokkra staði utan dyra, sem má reykja á.

Það þykir bæjarstjórninni í Belmont óþarfi, en Belmont er skammt frá Los Angeles. Þar er bæjarstjórnin að undirbúa löggjöf sem bannar allar reykingar utan dyra, hvar sem er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×