Erlent

Segjast hafa skotið geimflaug á loft

Íranar segjast hafa náð því takmarki sínu í gær að skjóta geimflaug á loft sem hafi síðan farið út fyrir gufuhvolf jarðar. Sérfræðingar segja að ef það reynist rétt geti Íranar hæglega smíðað langdrægar eldflaugar sem breyti stöðunni í kjarnorkudeilu þeirra við vesturveldin.

Íranar hafa ekki farið leynt með geimferðadrauma sína og vilja skjóta fimm gervihnöttum á braut um jörðu fyrir árið 2010.

Íranska sjónvarpið greindi frá geimskotinu í morgun og sagði það hafa heppnast vel. Engar myndir hafa verið sýndar af því.

Fréttir af geimskotinu koma á afar viðkvæmum tíma í kjarnorkudeilu Írana og vesturveldanna. Frestur sá sem Sameinuðu þjóðirnar veittu Írönum til að hætta auðgun úrans rann út fyrir helgi án þess að orðið hafi verið við þeirri kröfu.

Sérfræðingar segja að ef rétt reynist auki þetta enn á óvissuna í Mið-Austurlöndum. Þetta þýði þá að Íranar hafi náð tökum á þeirri tækni sem þurfi til að smíða langdrægar eldflaugar sem hljóti að valda áhyggjum hjá leiðtogum vesturveldanna.

Fulltrúar þeirra ríkja sem eiga fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, auk Þjóðverja, funda um málið á morgun. Refsiaðgerðir verða þá ræddar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×