Erlent

Dansað í konungshöllinni

Hinrik Danaprins var með Dorrit Moussaieff, forsetafrú Íslands, upp á arminn í afmælisveislu Haraldar Noregskonungs, í Ósló í gær. Haraldur er sjötugur og var slegið upp mikilli veislu í konungshöllinni. Þar stigu Dorrit og forsetinn léttan dans.

Það voru prúðbúnir gestir sem gengu inn í konungshöllina í Ósló í gærkvöldi til að fagna þeim merka áfanga sem konungur náði á miðvikudaginn. Sjötugsafmæli Sonju konu hans var einnig fagnað í gær en hún á þó ekki afmæli fyrr en 4. júlí.

Meðal þeirra sem heiðruðu konungshjónin með nærveru sinni í gærkvöldi voru Karl Gústaf Svíakonungur og Silvía drottning hans, Albert prins af Mónakó og Hinrik Danaprins með Dorritt Moussaieff, forsetafrú Íslands upp á arminn. Rétt á eftir þeim gekk svo Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og við hlið hans var Pentti Arajärvi, eiginmaður Törju Halonen, Finnlandsforseta.

Eftir borðhald var stiginn léttur dans og sýndu kóngar og forsetar fimi sína á dansgólfinu. Þar á meðal voru forseti Íslands og frú sem svifu um gólfið.

Veislugestir risu árla úr rekkju og sóttu kirkjutónleika í Sollihøgda-kapellu ásamt konungshjónunum. Þá var haldið í konunglega sleðaferð um snæviþaktar hlíðar nærliggjandi svæðis. Vel fór á með íslensku forsetahjónunum og norsku konungshjónunum sem sátu í sama sleða með Hinriki Danaprins og Karli Gústafi Svíakonungi. Eitthvað snjóaði á þessa tignu gesti og voru þeir vel búnir enda óþarfi að sækja lungnabólgu í ferð sem þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×