Erlent

Óskarsverðlaunin afhent í nótt

Undirbúningur fyrir Óskarsverðlaunahátíðina er nú í fullum gangi í Los Angeles í Bandaríkjunum, en verðlaunin verða afhent í nótt og verður hátíðin í beinni útsendingu hér á Stöð 2.

Stytturnar komu í Kodak leikhúsið í Los Angeles síðdegis í gær og var hver stytta fyrir sig borin þangað inn af nemendum í kvikmyndagerð. Hver þeirra gætti sinnar styttu sem sjáaldurs augna sinna. Íbúar sem og ferðamenn fylgdust opinmynntir með þessari athöfn sem er forleikur að því sem koma skal í kvöld og nótt.

Aðdáendur hvaðanæva að úr heiminum hafa streymt til Los Angeles síðustu daga og hafa barist um sæti við rauða dregilinn til að sjá stjörnurnar í návígi.

Fyrir verðlaunaafhendinguna er oft reynt að spá fyrir um hverjir hreppi hnossin. Það þykir erfitt í mörgum flokkum í ár.

Sigurstranglegustu leikararnir eru þó taldir Íslandsvinirnir Helen Mirren fyrir túlkun sína á Elísabetu annarri Englandsdrottningu í myndinni The Queen, og Forrest Whittaker fyrir leik sinn í myndinni Last King of Scotland þar sem hann þykir vinna leiksigur í hlutverki Idis Amins, látins einræðisherra Afríkuríkisins Úganda.

Fáir þora að spá því með vissu hvaða mynd úr hópi fimm tilnefndra verði talin sú besta í fyrra. Margir vilja þó veðja á Babel eftir mexíkóska leikstjórann Alejandro González Iñárritu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×