Erlent

Forseti Gíneu skipar nýjan forsætisráðherra

Stuðningsmenn stéttarfélaganna fagna skipun Kouyate sem forsætisráðherra.
Stuðningsmenn stéttarfélaganna fagna skipun Kouyate sem forsætisráðherra. MYND/AFP

Forseti Gíneu, Lansana Conte, hefur loks samþykkt kröfur stéttarfélaga í landinu um að skipa nýjan forsætisráðherra. Hann hefur skipað Lansana Kouyate, sem stéttarfélögum þykir ásættanlegur, sem forsætisráðherra. Stéttarfélögin hafa staðið fyrir verkföllum í landinu í tæpa tvo mánuði og nánast lamað efnahag þess.

Conte hafði áður skipað góðvin sinn sem forsætisráðherra til þess að verða við kröfum þeirra en stéttarfélögin kröfðust annars og betri forsætisráðherra. Þetta er í eitt fyrsta sinn sem að stéttarfélög í Afríku ná að hafa svo mikill áhrif á stjórnvöld þar í landi. Þau vildu Conte burt úr stól forseta þar sem þau telja hann of gamlan til þess að geta stjórnað landinu almennilega. Conte hefur verið við völd í Gíneu síðastliðin 23 ár.

Kouyate hefur áður unnið sem framkvæmdastjóri efnahagsbandalags Vestur-Afríkuríkja (ECOWAS) og er almennt vel liðinn í Gíneu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×