Erlent

Íbúar í Uppsölum slegnir

6 létust þegar tveir strætisvagnar á leið í gagnstæða átt rákust saman rétt utan við borgina Uppsali í Svíþjóð í morgun. Á fimmta tug til viðbótar slösuðust, þar af nokkrir lífshættulega. Ekki er vitað til þess að nokkrir Íslendingar hafi verið í vögnunum þegar slysið varð.

Slysið varð á áttunda tímanum í morgun nærri Lejsta, sem er um 20 kílómetra norð-austur af Uppsölum. Strætisvagnarnir voru báðir fullir af fólki. 3 eru sagðir í lífshættu og 7 alvarlega slasaðir. 30 til 40 til viðbótar hlutu minni áverka.

10 sjúkrabílar frá öllum nærliggjandi borgum voru kallaðir á vettvang. Vagnarnir fóru afar illa í árekstrinum og því gekk erfiðlega að komast að slösuðum í þeim. Sem dæmi rifnaði nær öll önnur hliðin af öðrum þeirra. Þyrlur fluttu þá sem verst voru slasaðir á Háskólasjúkrahúsið í Uppsölum. Vitni að slysinu fengu þegar áfallahjálp, sem og þeir sem slösuðust lítillega.

Ekki er vitað til þess að Íslendingar hafi verið í vögnunum en þeir eru fjölmargir í hópi íbúa á svæðinu.

Margrét Atladóttir er búsett í Uppsölum. Hún segir íbúa þar slegna vegna atburðanna og fát hafa verið á vinnufélögum sínum í morgun. Þeir hafi flestir verið í símanum að kanna hvort ættingjar og ástvinir hafi verið í vögnunum. Þeir séu mikið notaðir til að koma sér til vinnu í Uppsölum á morgnana.

Ekki er vitað með vissu hvað olli slysinu en töluverð hálka var á veginum. Honum var þegar lokað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×