Erlent

Hinsti hvílustaður frelsarans sagður fundinn

Jesús átti í ástarsambandi við Maríu Magdalenu og þau áttu son. Þetta er staðhæft í nýrri heimildarmynd bandaríska leikstjórans James Cameron þar sem segir að hinsti hvílustaður frelsarans sé fundinn.

Cameron er þekktur fyrir kvikmyndir á borð við True Lies og óskarsverðlaunamyndina Titanic. Heimildarmynd hans ber heitið Týnda grafhvelfing Krists eða The Lost Tomb of Christ. Þar er fjallað um grafhvelfingu sem byggingaverkamenn fundu fyrir rælni í úthverfi Jerúsalems árið 1980.

Þar inni voru 10 líkkistur úr kalksteini merktar Maríu, Matthíasi, Jesú syni Jóseps og Júdasi syni Jesú svo nokkur nafnanna séu nefnd. Í myndinni er því velt fram að kisturnar hafi geymt bein Jesú Krists og fjölskyldu hans. Nöfnin á kistunum bendi til þess að hann hafi átt son. DNA-sýni staðfesti svo það sem fram komi í myndinni.

Ísraelskir fornleifafræðingar segja öll þessi nöfn hafa verið algeng á þeim tíma sem grafhýsið sé frá og segja um sölubragð Camerons að ræða. Hann segir það alrangt. Hann hafi aldrei dregið það í efa að Jesú hafi verið til og gengið á jörðinni fyrir 2000 árum. Það sé hins vegar staðreynd að aldrei hafi verið lögð fram nokkur áþreifanleg sönnunargöng frá fornleifafræðingum sem styðji það, fyrr en nú.

Ekki eru allir vísindamenn sem komu að myndinni á sama máli. Stephan Pfann, prófessor í Biblíufræðum, segist hafa tekið þátt í gerð myndarinnar því hann hafi talið þörf á trúverðugri yfirferð á því sem þar komi fram og hverni sagan sé sögð. Hann segist ekki sannfærður um að grafhvelfing Jesú frá Nasaret sé fundin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×