Erlent

Eiga von á liðsauka frá allri Evrópu

Brennandi götuvirki hafa verið reist á Nörrebro.
Brennandi götuvirki hafa verið reist á Nörrebro. MYND/Nyhedsavisen

Íbúar ungdómshússins í Kaupmannahöfn segja að þeir eigi von á liðsauka allsstaðar að úr Evrópu. Ritt Bjerregård, borgarstjóri Kaupmannahafnar, hefur stytt frí sitt í Noregi og er á leið til höfuðborgarinnar. Íbúarnir reyna nú að koma af stað óeirðum í öðrum borgarhlutum, þar sem enginn kemst í gegnum lögregluvörðinn við Ungdómshúsið.

Óvíst er þó að hinn boðaði liðsauki frá Evrópu komi að einhverju gagni, því að sögn hefur lögreglan þegar komið fyrir sprengiefni í Ungdómshúsinu og ætlar að jafna það við jörðu strax í dag. Þó er búist við talsverðum átökum í Kaupmannahöfn þegar líður á daginn, þar sem boðað hefur verið til mikilla mótmælaaðgerða í kvöld.

Ungdómshúsið var byggt árið 1890 og var þá miðstöð verkalýðshreygingarinnar í Danmörku. Árið 1980 stóð húsið autt og þá hertóku ungmenni það og hafa verið með ýmsa starfsemi þar síðan. Húsið er illa farið, ekki síst eftir að það var ekki gert upp eftir mikinn bruna árið 1996.

Borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn hafa boðið húsráðendum ýmsar aðrar lausnir á húsnæðisvanda sínum, meðal annars nýtt hús, en því hefur verið hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×