Erlent

Grunaður barnaníðingur handtekinn í Leipzig

Þýska lögreglan hefur handtekið mann á fimmtugsaldri sem grunaður er um að hafa nauðgað og síðan myrt níu ára strák fyrir tæpri viku. Maðurinn reyndi að svipta sig lífi en liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi.

Drengurinn Mitja Hofman og var á leið heim til sín með sporvagni þegar hann hitti Uwe Kolbing, dæmdan barnaníðing. Kolbing settist við hlið hans og eins og sjá má á þessum myndum úr eftirlitsmyndavél fóru þeir út úr vagninum á sama tíma. Ekkert spurðist til hans og mikil leit gerð. Lík drengsins fannst svo á laugardagsmorguninn í garði sem Kolbing hafði aðgang að.

Mikil leit var þegar gerð að Kolbing og tóku rúmlega hundrað lögreglumenn þátt í henni. Kolbing hafði hlotið tveggja ára dóm árið 1998 fyrir tilraun til að misnota barn. Hann hafði áður hlotið fjóra dóma fyrir svipaðar sakir í fyrrum Austur-Þýskalandi.

Kolbing fannst svo í morgun mikið slasaður eftir að hann stökk fyrir sporvagn í Leipzig. Honum var bjargað undan vagninum og liggur hann nú þungt haldinn á sjúkrahúsi. Mál Kolbings er nú til meðferðar hjá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×