Erlent

Fær höllina sína aftur

Peles konungshöllin í Rúmeníu.
Peles konungshöllin í Rúmeníu. MYND/AP

Stjórnvöld í Rúmeníu hafa fallist á að skila aftur þrem höllum sem teknar voru af konungsfjölskyldu landsins skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Kommúnistastjórn landsins sló eign sinni á hallirnar þegar Mikael konungur afsalaði sér konungdómi árið 1947, undir miklum þrýstingi frá Sovétríkjunum.

Mikael, sem nú er 85 ára gamall hefur ásamt dóttur sinni Margréti verið velgjörðarsendiherra Rúmeníu undanfarin ár, og meðal annars unnið að því að landið fengi aðild að Evrópusambandinu. Það gekk eftir hinn fyrsta janúar í ár.

Stærsta höllin sem Mikael konungur fær aftur er Peles höllin, sem í dag er vinsæll ferðamannastaður. Þar eyddi konungur stórum hluta barnæsku sinnar. Samningurinn hljóðar uppá að ríkið kaupi hana aftur af konungi fyrir 2,5 milljarða króna. Konungsfjölskyldann fær íbúð í Peles, en hún verður áfram opin almenningi.

Líklegt má telja að þessi niðurstaða í Rúmeníu veki vonir í brjósti annarra aðalsmanna í Evrópu, sem misstu lendur og hús þegar Sovétríkin slógu eign sinni á Austur-Evrópu, eftir stríðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×