Erlent

Ungdómshúsið rifið

Hálfgert stríðsástand hefur ríkt á Norðurbrú undanfarna daga.
Hálfgert stríðsástand hefur ríkt á Norðurbrú undanfarna daga. MYND/AP

Ungdómshúsið, á Norðurbrú í Kaupmannahöfn, var rifið í morgun af grímuklæddum verkamönnum sem óttuðust hefndaraðgerðir mótmælenda. Frekari mótmæli hafa verið boðuð í borginni á næstu dögum.

Óhætt er að segja að styr hafi staðið um Ungdomshuset á Norðurbrú eftir að lögreglusveitir rýmdu það á fimmtudaginn. Hverfið hefur logað í óeirðum og 600 manns hafa verið handteknir. Í morgun hófst svo lokakaflinn í þessari harmrænu sögu þegar húsið var rifið. Verkamennirnir voru með grímur svo að ekki mætti bera á þá kennsl og málað hafði verið yfir nafn verktakans á krananum sem var notaður til verksins. Mótmælendur fylgdust hnípir með silfurlituðum krananum mola þessa fyrrum félagsmiðstöð vinstri róttæklinga í smátt. Um tíma stöðvuðu raunar heilbrigðisyfirvöld niðurrifið vegna þess að fíngert steypuryk lagði frá rústunum sem óttast var að innihéldi asbest. Eftir að bleytt hafði verið steypumulningunum tók svo kraninn aftur til við að jafna húsið við jörðu. Á blaðamannafundi í morgun kvaðst forstöðumaður safnaðarins sem átti húsið kostnað við lagfæringar hafa verið of mikinn og því hafi orðið að rífa það. Þá var upplýst að trúarleg menningarmiðstöð yrði reist á reitnum þar sem Ungdomshuset stóð áður. Síðdegis var efnt til háværs kröfufundar fyrir utan fangelsi í borginni þar sem fjölmargir andstæðinga niðurrifsins eru vistaðir og segjast mótmælendur ætla að halda aðgerðum sínum áfram þar til fangarnir hafa verð látnir lausir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×