Erlent

Reyndu að eyðileggja sönnunargögn

Hamid Karzai, forseti Afganistan.
Hamid Karzai, forseti Afganistan. MYND/AFP
Bandarískir hermenn reyndu að uppræta og eyðileggja allar myndir og myndbönd af skotárásinni sem átti sér stað í gær. Í henni létust að minnsta kosti tíu manns. Þetta kom fram á vefsíðu fréttastöðvarinnar Al Jazeera í dag.

Fréttastöðin heldur því fram að hún hafi undir höndum myndband sem að sanni þetta. Stöðin segir að í því sjáist fólk vera hissa og áttavilt og að hjálpa þeim sem særðust í árásinni. Á meðal þeirra sem létust í skotárás bandarískra hermanna var 80 ára maður sem sat í bíl sínum.

Í yfirlýsingu frá bandaríska hernum segir að sjálfsmorðssprengjumaður hafi gert árás á þá og að einnig hafi verið á þá skotið. Þeir hafi síðan svarað skothríðinni og þess vegna hafi þetta verið dæmi um sjálfsvörn af þeirra hálfu.

Vitni sem Al Jazeera talaði við fullyrtu þó að sprengjumaðurinn hafi verið einn á ferð og að engir aðrir hafi verið að ógna öryggi hermannanna. Þeir hafi einfaldlega misst sig eftir að árásin var gerð.

Forseti Afganistan, Hamid Karzai fordæmdi atvikið og hefur þegar fyrirskipað rannsókn á því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×