Erlent

Þingið í Ekvador gegn forsetanum

Rafael Correa, forseti Ekvador, þykir umdeildur í heimalandi sínu. Hann stjórnar með fulltingi minnihlutastjórnar og því er oft grunnt á því góða á milli þingsins og Correa.
Rafael Correa, forseti Ekvador, þykir umdeildur í heimalandi sínu. Hann stjórnar með fulltingi minnihlutastjórnar og því er oft grunnt á því góða á milli þingsins og Correa. MYND/AP

Þingið í Ekvador lagði fram tillögu hjá stjórnarskrárdómstólum landsins til þess að reyna að koma í veg fyrir að Rafael Correa, hinn vinstri sinnaði forseti landsins, geti haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort hann megi halda stjórnarskrárþing og breyta stjórnarskrá landsins. Talið er líklegt að þetta eigi eftir að auka á spennu í landinu en stuðningsmenn Correa hafa verið duglegir við að mótmæla tilburðum þingsins til þess að setja sig upp á móti Correa.

Hann er einn af helstu vinum Hugo Chavez, þjóðnýtingarsinnaða forseta Venesúela. Correa breytti tillögunni um þjóðaratkvæðagreiðsluna á síðustu stundu á þann hátt að sá sem situr yfir stjórnarskrárþinginu geti leyst upp dómstóla og þing landsins. Þingið samþykkti hins vegar aldrei þann hluta tillögunnar og því vill það að stjórnarskrárdómstóllinn ógildi þann hluta tillögunnar.

Dómstóllinn gæti hins vegar tekið sér allt að 60 daga til þess að úrskurða í málinu og ef sú verður raunin hefur úrskurðurinn ekkert gildi þar sem atkvæðagreiðslan hefur þegar farið fram. Þetta fullyrða lagasérfræðingar í Ekvador.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×