Erlent

Ótrúlega margir björguðust

Vélin gjöreyðilagðist í slysinu.
Vélin gjöreyðilagðist í slysinu. MYND/AP

22 fórust þegar farþegaþota fórst skömmu eftir lendingu í borginni Yogyakarta í Indónesíu í morgun. Furðu sætir hins vegar að 112 farþegar hafi sloppið lifandi úr slysinu því flugvélin gjöreyðilagðist.

Flugvélin var af tegundinni Boeing 737-400 en hún var á leið frá höfuðborginni Djakarta á Jövu til hins forna höfuðstaðar Yogyakarta. Um borð voru 133 farþegar, þar á meðal ástralskir erindrekar og fréttamenn sem voru í fylgdarliði Alexanders Downers utanríkisráðherra Ástralíu, en hann er í opinberri heimsókn í Indónesíu. Eftir mikla ókyrrð á leiðinni skall vélin harkalega til jarðar á flugvellinum og þaut svo út eftir flugbrautinni á mikilli ferð og við enda hennar kviknaði svo í henni. Ástralskur myndatökumaður sem var um borð náði þessu myndum sem sýna farþegana flýja eldhafið og hlaupa út á nálægan hrísgrjónaakur.

Í fyrstu fullyrtu stjórnvöld að 48 lík hefðu fundist en síðar var það dregið til baka. Nú er ljóst að 22 fórust og þykir það vel sloppið miðað við hversu illa flak vélarinnar er farið. Auk hefðbundinnar rannsóknar hafa indónesísk yfirvöld þegar fyrirskipað rannsókn á hvort hryðjuverkamenn hefðu grandað vélinni vegna heimsóknar Downers en ástralskir ráðamenn segja ekkert benda til þess. Þeir sem komust lífs af úr slysinu voru fluttir á nærliggjandi sjúkrahús en meiðsli þeirra eru óveruleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×