Erlent

Demókratar fagna dómnum

Þingmenn demókrata fagna dómnum yfir Lewis Libby, fyrrverandi starfsmannastjóra Dicks Cheney, varaforseta Bandaríkjanna, sem kveðinn var upp í gær. George Bush forseti hefur samúð með Libby og fjölskyldu hans.

Libby var í gær dæmdur sekur af fjórum af fimm ákærum fyrir meinsæri og að hindra réttvísina í rannsókninni á hver lak til fjölmiðla nafni Valerie Plame, útsendara leyniþjónustunnar CIA. Það var gert til að koma höggi á eiginmann hennar en hann hafði gagnrýnt Bush-stjórnina harðlega fyrir að hagræða upplýsingum um gereyðingavopnaeign Saddams Husseins. Libby var starfsmannastjóri Dick Cheney og einn nánasti samstarfsmaður hans og því hefur málið vakið svo mikla athygli. Lögmenn Libbys segja hann hafa verið gerðan að blóraböggli fyrir axarsköft annarra starfsmanna stjórnarinnar, til dæmis Karl Rove, fyrrverandi ráðgjafa Bush. Dick Cheney sagðist í yfirlýsingu sinni harma dóminn enda hefði Libby þjónað þjóð sinni sérstaklega vel í gegnum tíðina. Talsmaður Hvíta hússins sagði að Bush virti niðurstöðuna en að hann fyndi til með Libby og fjölskyldu hans. Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni fagnaði hins vegar dómnum og sagði tíma til kominn að einhver í ríkisstjórn Bush væri látinn bera ábyrgð á blekkingarvefnum sem ofinn var í aðdraganda Íraksstríðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×