Erlent

Búa til reglur um umgengni við vélmenni

Kona heilsar hér Asimo vélmenni frá Honda verksmiðjunum.
Kona heilsar hér Asimo vélmenni frá Honda verksmiðjunum. MYND/AFP
Ríkisstjórn Suður-Kóreu hefur sett saman nefnd sem á að setja vinnureglur fyrir þá sem búa til vélmenni. Reglurnar eiga að skilgreina hvernig mannfólkið á að umgangast vélmenni og hvernig þau eiga að umgangast mannfólkið. Skýrslan verður tilbúin síðar á þessu ári.

Að skýrslunni vinna fimm manns, þar á meðal framtíðarsérfræðingar sem og vísindaskáldsagnahöfundur. Suður-kóreska stjórnin hefur sagt að vélmenni verði brátt ein helsta útflutningsvara landsins og lykilþáttur í efnahagsvexti landsins í framtíðinni. Hún hefur þegar eytt milljónum dollara í rannsóknir á þeim vettvangi.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu eru vel þekkt fyrir að huga að framtíðinni. Samkvæmt nýlegri skýrslu stjórnvalda sem kom út þar í landi segir að líklegt sé að vélmenni eigi eftir að framkvæma skurðaðgerðir fyrir árið 2018. Einnig er því spáð að öll heimili í landinu eigi eftir að eignast vélmenni fyrir árið 2020.

Talið er líklegt að reglurnar eigi eftir að líkjast þeim reglum sem rússneski rithöfundurinn Isaac Asimov skrifaði í stuttsögu sinni Runaround árið 1942. Þær eru:

1. Vélmenni má ekki skaða manneskju á nokkurn hátt, eða valda henni skaða með því að gera ekki neitt.

2. Vélmenni verður að hlýða þeim skipunum sem að manneskja gefur henni nema ef hún stangast á við fyrstu regluna.

3. Vélmenni verður að vernda eigin tilveru svo lengi sem að það stangast ekki á við fyrstu eða aðra regluna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×