Erlent

Gates vill slaka á innflytjendalögum

Bill Gates á fundi nefndarinnar í kvöld.
Bill Gates á fundi nefndarinnar í kvöld. MYND/AFP

Bill Gates, stjórnarformaður Microsoft, varaði við því í dag að höft sem sett eru á að hæfir erlendir starfsmenn megi starfa í Bandaríkjunum skerði samkeppnishæfi landsins. Ummæli Gates eru nýjasta árásin á innflytjendalög í tæknigeiranum í Bandaríkjunum en hann vantar sárlega starfsfólk.

Gates sagði þetta á fundi með Heilbrigðis-, mennta-, atvinnu- og lífeyrisnefnd öldungadeildar bandaríska þingsins í dag. Hann gagnrýndi lögin harkalega en þau eru að hluta til svo ströng vegna hryðjuverkalaga sem voru sett eftir 11. september 2001. Hann sagði að Bandaríkin væru að „Reka í burtu heimsins bestu og gáfuðustu einmitt þegar við þurfum mest á þeim að halda."

„Það er ekkert vit í því að segja vel þjálfuðu og hámenntuðu fólki, sem margt er menntað í okkar bestu háskólum, að Bandaríkin vilji ekki hafa þau og meti þau ekki að verðleikum." sagði Gates ennfremur. Hann benti líka á að önnur lönd væru farin að nýta sér þessa stefnu Bandaríkjanna og væru farin að ráða þetta sama fólk.

Financial Times segir frá þessu á vefsíðu sinni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×