Erlent

FBI misnotaði vald sitt

Robert Mueller, stjórnandi FBI, svarar fréttamönnum á fréttamannafundi í gærkvöldi.
Robert Mueller, stjórnandi FBI, svarar fréttamönnum á fréttamannafundi í gærkvöldi. MYND/AFP

Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, misnotaði vald sitt til þess að nálgast upplýsingar um fólk sem hún hafði engan rétt á því að fá. Þetta kemur fram í skýrslu sem að eftirlitsstofnun innan dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna gaf frá sér í gær. FBI hefur þegar viðurkennt mistök sín.

Robert Mueller, stjórnandi FBI, sagði að hann bæri ábyrgð á misnotkuninni. Hann sagði jafnframt að hann myndi gera allt í sínu valdi til þess að leiðrétta mistökin og koma í veg fyrir að þau gætu átt sér stað aftur.

Í skýrslunni frá dómsmálaráðuneytinu kemur fram að FBI hafi orðið sér út um svokölluð þjóðaröryggisbréf og notað þau til þess að verða sér úti um upplýsingar sem stofnunin átti ekki rétt á að fá. Einnig kom fram að stofnunin hefði aðeins sagt frá minnihluta bréfa sem hún hefði orðið sér út um. Bréf þessi virka svipað og dómsúrskurður um leitarheimild.

Aðalsaksóknari bandaríska ríkisins, Alberto Gonzales, sagði að um alvarleg brot á öryggislöggjöf Bandaríkjanna væri að ræða og að það yrði að taka á þeim hið fyrsta. Þrátt fyrir það tók hann fram að þjóðaröryggisbréfin væru nauðsynleg öryggi Bandaríkjanna og við þeim mætti ekki hrófla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×