Erlent

Íranar bjartsýnir eftir friðarráðstefnu í Bagdad

Aðstoðarutanríkisráðherra Írans sést hér tala við fréttamenn við  lok ráðstefnunnar í Bagdad í gær.
Aðstoðarutanríkisráðherra Írans sést hér tala við fréttamenn við lok ráðstefnunnar í Bagdad í gær. MYND/AFP

Utanríkisráðuneytið í Íran sagði í dag að alþjóðlega ráðstefnan í Bagdad, þar sem Íran og Bandaríkin áttu fyrstu viðræður síðan árið 2003, hefði verið gott fyrsta skref í áttina að auknu öryggi og stöðugleika í Írak. Ráðamenn í Tehran gáfu einnig til kynna að þeir vonuðust til þess að seinni fundurinn um málefni Íraks eigi eftir að verða jafngóður. Seinni fundurinn á að eiga sér stað í Apríl og hann munu sækja utanríkisráðherrar þeirra landa sem sem sóttu fundinn í gær.

Íranar tóku einnig fram að þeir myndu styðja hvaða áætlun sem gæti bundið enda á blóðbaðið í nágrannalandi þeirra. Talsmaður utanríkisráðuneytisins sagði að lokum að það myndi hjálpa til að festa dagsetningu á brottför erlendra hermanna frá Írak. Hvorki George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, né Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafa viljað festa niður dagsetningu. Þeir telja að það muni gefa uppreisnarmönnum byr undir báða vængi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×