Fótbolti

Systir Ricardo Oliveira fundin heil á húfi

Ricardo Oliveira hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarna mánuði
Ricardo Oliveira hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarna mánuði NordicPhotos/GettyImages

Fimm mánaða langri martröð knattspyrnumannsins Ricardo Oliveira hjá AC Milan er nú lokið. Systur hans Mariu var rænt í Brasilíu í október en á heimasíðu Milan í dag var tilkynnt að hún væri komin til síns heima á ný eftir þessa óskemmtilegu lífsreynslu. Maria er sögð heil á húfi.

Mannrán á borð við þetta hafa færst í aukana á síðustu árum, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem fjölskyldumeðlimi knattspyrnumanns sem spilar í Evrópu er rænt. Móður Brasilíumannsins Robinho hjá Real Madrid var til að mynda rænt árið 2004 og var hún 40 daga í haldi.

Systur Oliveira var rænt af heimili sínu í október á síðasta ári, en þá voru maður hennar og átta ára gamall sonur hennar keflaðir og bundir meðan hún var numin á brott. Ekkert hefur frést af því hvort Maria fékkst laus gegn lausnargjaldi eða hvort lögreglan í Sao Paolo hafði hendur í hári mannræningjanna - en líklega skiptir mestu máli að hún er heil á húfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×